Birkir Bjarnason og liðsfélagar í Brescia unnu afar verðmætan sigur á Verona í kvöld í baráttunni um áframhaldandi sæti í efstu deild á Ítalíu.
Birkir var í byrjunarliði Brescia og spilaði fram á 83. mínútu en þá kom Jaromir Zmrhal inn á í hans stað.
Markalaust var í hálfleik en Andrea Papetti kom Brescia yfir á 52. mínútu. Það var síðan Alfredo Donnarumma sem innsiglaði 2-0 sigur Brescia í uppbótartíma og fara Brescia með sigrinum upp um eitt sæti, úr því neðsta í það næstneðsta.
Brescia eru núna sex stigum frá öruggu sæti þegar átta umferðir eru eftir af mótinu í ítölsku úrvalsdeildinni.
Á sama tíma vann Atalanta sinn áttunda sigur í röð í deildinni þegar þeir unnu Cagliari 1-0 á útivelli en Luis Muriel skoraði eina mark leiksins úr vítaspyrnu á 27. mínútu. Með sigrinum fara Atalanta í 63 stig og eru núna aðeins stigi á eftir Inter sem situr í þriðja sæti deildarinnar.