Fótbolti

Leikmaður Lazio fékk rautt fyrir að bíta mótherja | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bitvargurinn Patric fær að líta rauða spjaldið.
Bitvargurinn Patric fær að líta rauða spjaldið. getty/Marco Rosi

Patric, varnarmaður Lazio, var rekinn af velli fyrir að bíta mótherja í uppbótartíma í leik liðsins gegn Lecce í ítölsku úrvalsdeildinni í gær.

Lazio tapaði leiknum, 2-1, og Patric tók reiði sína út á Giulio Donati, varnarmanni Lecce.

Þegar Felipe Caicedo, framherji Lazio, og Fabio Lucioni, varnarmaður Lecce, lentu í orðaskaki í uppbótartíma reyndi Donati að stilla til friðar. Patric kom þá aftan að honum og sökkti tönnunum í öxlina á honum. Atvikið má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Beit mótherja

Patric hafði ekkert upp úr krafsinu nema rautt spjald og væntanlega langt bann. Óhætt er að segja að þetta hafi ekki verið hans dagur en hann fékk á sig vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks fyrir hendi. Marco Mancuso, fyrirliði Lecce, skaut yfir úr vítinu.

Strax á 3. mínútu var mark dæmt af Mancuso eftir inngrip myndbandsdómgæslu. Tveimur mínútum síðar kom Caicedo Lazio yfir.

Khouma Babacar jafnaði á 30. mínútu og staðan var 1-1 í hálfleik. Í upphafi seinni hálfleiks skoraði Fabio Lucioni sigurmark Lecce með skalla eftir hornspyrnu. Með sigrinum komst liðið upp úr fallsæti.

Lazio hefur fatast flugið í toppbaráttunni að undanförnu og er sjö stigum á eftir toppliði Juventus. Lazio hefur tapað þremur af fimm leikjum sínum eftir að keppni hófst á ný eftir kórónuveirufaraldurinn.

Mörkin og helstu atvik úr leik Lecce og Lazio má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Lazio að missa flugið



Fleiri fréttir

Sjá meira


×