Skjálfti af stærðinni 4,2 reið yfir á norðurlandi nú klukkan 17:41 samkvæmt tölum hjá Veðurstofu Íslands eftir fyrstu yfirferð. Skjálftinn varð um 13 km vestnorðvestur af Gjögurtá á 4,8 km dýpi. Skjálftinn fannst á Akureyri samkvæmt heimildum fréttastofu.
Tilkynningar um að skjálftinn hafi fundist hafa borist frá flest öllum þéttbýlisstöðum í Eyjafirði.
Jarðskjálftahrinan í Tjörnesbrotabeltinu er enn yfirstandandi en hún hófst 19. júní síðastliðinn. Síðasti skjálfti á svæðinu sem var yfir fjórir að stærð varð 27. júní en hann var 4,1 að stærð.
Í hrinunni er þetta fjórtándi skjálftinn yfir fjórum.