Borgarstjóri suðurkóresku höfuðborgarinnar Seúl fannst látinn í norðurhluta borgarinnar í dag. Þetta kemur fram í orðsendingu lögreglunnar sem birt er á vef suðurkóreska miðilsins Yonhap. Park Won-soon var 64 ára gamall en lýst var eftir borgarstjóranum þegar hann skilaði sér ekki til vinnu í ráðhúsi Seúlborgar í dag.
Dóttir borgarstjórans segir að hann hafi skilið eftir torræð skilaboð áður en hann yfirgaf heimili sitt um morguninn. Í umfjöllun þarlendra miðla segir að skilaboðin hafi hljómað eins og erfðaskrá. Því eru leiddar að því líkur að um sjálfsvíg sé að ræða. Park mætti ekki heldur til vinnu í gær og bar hann fyrir sig veikindi.

Næstum 800 lögregluþjónar, sjúkraflutninga- og slökkviliðsmenn leituðu að Park við heimili hans og nálægt símamastrinu þangað sem farsími hans tengdist síðast. Hann fannst að endingu í norðurhluta höfuðborgarinnar sem fyrr segir.
Park var kjörinn borgarstjóri Seúl árið 2011 og var hann á þriðja og síðasta kjörtímabili sínu. Hann var af mörgum talinn líklegur forsetaframbjóðandi í kosningum ársins 2022. Hann lætur eftir sig eiginkonu og tvö börn.
Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri svara þeim símtölum og spjöllum sem berast. Fullum trúnaði er heitið. Nánari upplýsingar hér.