Samningafundi samninganefnda Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair sem staðið hefur yfir í dag hjá Ríkissáttasemjara í Karphúsinu er lokið. Annar fundur hefur verið boðaður á þriðjudaginn klukkan 14.
Fundur samninganefndanna hófst klukkan þrjú í dag til að fara á ný yfir stöðuna í kjaradeilum FFÍ og Icelandair en flugfreyjufélagið felldi kjarasamning á miðvikudag sem hafði verið undirritaður 25. júní eftir langar og strangar viðræður.
Samningaviðræður FFÍ og SA, fyrir hönd Icelandair, voru sagðar mjög flóknar enda kom hagræðingaferli Icelandair inn í samningsgerðina, en samningar við stéttarfélög eru meðal lykilatriða í fjárhagslegri endurskipulagningu flugfélagsins sem nú stendur yfir. Ríkissáttasemjari sagði í samtali við fréttastofu í vikunni að farið yrði yfir málið á ný, það greint og reynt að finna nýjan flöt. Hann sagðist þess fullviss að allir myndu gera sitt besta til að ná saman.