Kjartan Henry Finnbogason og liðsfélagar hans í Vejle í Danmörku munu að öllum líkindum leika í dönsku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.
Liðið er á toppi 1. deildarinnar með níu stiga forskot á Viborg FF þegar níu stig eru eftir í pottinum. Vejle er hinsvegar með töluvert betri markatölu en Viborg, eða 13 mörkum meira í plús.
Vejle sigraði Vendsyssel á útivelli með tveimur mörkum gegn engu í dag. Á meðan gerði Viborg 2-2 jafntefli við BK Fremad Amager. Kjartan Henry lék fyrstu 77 mínúturnar fyrir Vejle í sigrinum í dag.
Kjartan gekk til liðs við Vejle í janúar 2019 en þá lék liðið í úrvalsdeildinni. Liðið féll síðan um deild en er nú eins og áður segir nánast öruggt um að vinna 1. deildina og fara upp aftur. Í 26 deildarleikjum fyrir Vejle hefur Kjartan skorað 18 mörk.