Erlent

Höfðu hendur í hári gísla­töku­mannsins

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Mynd frá vettvangi sem innanríkisráðherra Úkraínu deildi á Twitter.
Mynd frá vettvangi sem innanríkisráðherra Úkraínu deildi á Twitter. Twitter

Öryggissveitir í Úkraínu hafa haft hendur í hári manns sem tók þrettán manns í gíslingu í rútu í borginni Lutsk. Maðurinn hafði meðal annars sett fram kröfu um að hátt settir stjórnmálamenn í landinu lýstu því yfir að þeir væru hryðjuverkamenn. Þremur gíslum hafði verið sleppt áður.

Samkvæmt breska ríkisútvarpinu voru gíslarnir tíu sem eftir voru látnir lausir stuttu eftir að forseti Úkraínu, Volodíjmíjr Selenskíj steig fram og birti af sér myndband þar sem hann hvatti „alla til þess að horfa á kvikmyndina Earthlings frá árinu 2005,“ en það ku hafa verið ein af kröfum mannsins. Myndin fjallar um stórfyrirtæki sem græða á dýrum.

 Selenskíj hafði átt í samningaviðræðum við gíslatökumanninn, þar sem hann setti meðal annars fram kröfu um að forsetinn myndi hvetja alla til þess að horfa á myndina. Forsetinn gerði það, og skömmu síðar tilkynnti Arsen Avakov innanríkisráðherra um að maðurinn hefði náðst. Forsetinn eyddi þá myndbandinu.

Öll sem tekin voru í gíslingu eru á heilu og höldnu, að því er fram kemur í tísti frá Avakov  innanríkisráðherra. Á mynd sem fylgir með tístinu má sjá gíslatökumanninn handjárnaðan á jörðinni.

Gíslatökumaðurinn heitir Maksíjm Kríjvosj og er 44 ára Rússi. Hann hefur verið dæmdur fyrir ýmsa glæpi og hefur hann setið tíu ár í fangelsi fyrir fjársvik, rán og ólögleg vopnaburð. Hann skaut fyrr í dag á lögregludróna út um rúðu á rútunni og kastaði handsprengju sem sprakk ekki, að sögn fréttastofu AP. Þá er hann sagður halda því fram að hann hafi komið fyrir sprengju á opinberum stað í borginni sem hann gæti sprengt með fjarstýringu.


Tengdar fréttir

Gíslataka í rútu í Úkraínu

Vopnaður maður heldur nú farþegum lítillar rútu í gíslingu í borginni Lutsk í vestanverðri Úkraínu. Hann er sagður krefjast þess að hátt settir stjórnmálamenn lýsi því yfir að þeir séu „hryðjuverkamenn“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×