Það er útlit fyrir hádramatíska fallbaráttu í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta í dag en ljóst er að aðeins eitt eftirtalinn liða mun halda sæti sínu í deildinni; Aston Villa, Watford eða Bournemouth.
Villa er fyrir ofan fallstrikið þar sem liðið er með einu marki betri markatölu en Watford. Bournemouth er svo þremur stigum á eftir, í 19. sæti, en dugar sigur á Everton í dag ef hin tvö liðin tapa. Villa sækir West Ham heim í dag en Watford mætir Arsenal á útivelli.
Segja má að Villa hafi tveggja marka forskot á Watford, þar sem að Villa-menn hafa skorað fleiri mörk á leiktíðinni. Villa virtist á leið niður í 1. deild en hefur náð í sjö stig úr síðustu þremur leikjum, þar sem Egyptinn Trézéguet hefur séð um að skora mörkin í sigurleikjum gegn Arsenal og Crystal Palace.
Lið Norwich er löngu fallið en það er með 19 stig á botni deildarinnar.
Umspilið í B-deildinni hefst
Leeds United og West Bromwich Albion náðu tveimur efstu sætunum í ensku B-deildinni og leika því í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.
Umspilið um þriðja sætið í deildinni hefst í dag þegar Swansea tekur á móti Brentford, en Swansea náði með ævintýralegum hætti að koma sér í umspilið á kostnað Nottingham Forest á meðan að Brentford missti 2. sæti í hendur West Brom með tapi í lokaumferðinni.
Seinni leikur Brentford og Swansea verður svo á miðvikudag. Í hinu umspilseinvíginu mætast Cardiff og Fulham, á morgun og á fimmtudag. Umspilið er sýnt á Stöð 2 Sport 2.