Viðskipti innlent

Búið að slökkva á öskur­há­tölurunum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Úr kynningarmyndbandi Let it out, sem um sjö milljónir hafa séð.
Úr kynningarmyndbandi Let it out, sem um sjö milljónir hafa séð. Skjáskot

Hinir umdeildu öskurhátalarar Íslandsstofu verða fjarlægðir á næstu dögum. Þrátt fyrir að búið sé að slökkva á þeim getur fólk áfram sent inn öskur, sem mun þó aðeins hljóma á netinu framvegis.

Sjö hátölurunum var komið upp víðsvegar um landið þann 15. júlí síðastliðinn. Þeir voru þungamiðjan í auglýsingaherferð Íslandsstofu sem ætlað var að vekja athygli á Íslandi sem áfangastað ferðamanna í kórónuveirufaraldrinum. Þreyttum netverjum bauðst að taka upp öskur sitt, senda það inn á vefsíðu verkefnisins og láta hátalarana svo varpa því út í íslenska náttúru.

Þó svo að uppátækið hafi ekki verið allra segir Íslandsstofa sjálf að viðtökurnar hafi farið fram úr björtustu vonum. Á þeim tveimur vikum sem hátalaranna hefur notið við hafa 7 milljónir netverja horft á kynningarmyndband verkefnisins, 50 þúsund öskur hafi borist og rúmlega hálf milljón heimsótt vefsíðu átaksins.

Nú er hins vegar komið að kaflaskilum. Tveggja vikna líftími auglýsingarinnar er liðinn og hefur því verið slökkt á hátölurunum og verða þeir fjarlægðir á næstu dögum. Sem fyrr segir býðst fólki áfram að taka upp að öskur á vefsíðunni en það verður ekki spilað gegnum hátalarana framvegis.

Samkvæmt samantekt Íslandsstofu hafa rúmlega 700 fréttir verið skrifaðar um öskuruppátækið í erlendum fjölmiðlum, umfjöllun sem náð hefur til rúmlega tveggja milljarða jarðarbúa.


Tengdar fréttir

Hugmyndin kviknaði vegna Covid-gremju

Raddir um þrjátíu þúsund manns alls staðar að úr heiminum hafa hljómað í íslenskri náttúru undanfarna daga. Sumir öskra, aðrir syngja eða bera upp bónorð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×