Sjö manns fórust, þar á meðal ríkisþingmaður, þegar tvær flugvélar rákust saman á flugi skammt frá borginni Anchorage í Alaska í Bandaríkjunum í gær. Enginn komst lífs af úr slysinu og loka þurfti hraðbraut tímabundið eftir að brak úr vélunum féll á hana.
Slysið átti sér stað nærri flugvelli í Soldotna á Kenai-skaga, skammt suður af Anchorage, í gærmorgun. Gary Knopp, þingmaður Repúblikanaflokksins á ríkisþingi Alaska, flaug annarri vélinni og var einn um borð. Í henni vélinni voru fjórir ferðamenn frá Suður-Karólínu á þrítugsaldri, fertugur leiðsögumaður frá Kansas og 57 ára gamall flugmaður frá Soldotna, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Sex þeirra voru úrskurðaðir látnir á slysstað en einn lést á leið á sjúkrahús. Flugmálastofnun Bandaríkjanna og samgönguöryggisnefnd landsins rannsaka tildrög slyssins. Staðfest er að önnur vélanna var eins hreyfils de Havilland DHC-2 Beaver en hin af gerðinni Piper PA-12.
Staðarmiðillinn Anchorage Daily News segir að fjöldi fólks hafi orðið vitni að slysinu á jörðu niðri. Skyggni er sagt hafa verið gott. Brak úr vélunum féll á hraðbraut og var henni lokað í öryggiskyni í kjölfarið.
Knopp var 67 ára gamall og var kjörinn á ríkisþingið árið 2016. Hann hafði áður starfað sem verktaki, flugkennari og flugmaður um árabil.
