Fótbolti

For­setinn efast ekki um að Messi verði enn í Barcelona treyjunni eftir þrjú til fjögur ár

Anton Ingi Leifsson skrifar
Messi fagnar marki í 2-0 sigri á Leganes fyrr á leiktíðinni.
Messi fagnar marki í 2-0 sigri á Leganes fyrr á leiktíðinni. vísir/getty

Forseti Barcelona, Josep Maria Bartomeu, er í engum vafa um það að Lionel Messi muni klára feril sinn hjá félaginu sem hann hefur leikið með síðan hann var krakki.

Reglulega er Messi orðaður við önnur lið en hann er ekki sagður sáttur með hlutina hjá Barcelona. Þar á meðal stjórnarmennsku Bartomeu.

Núverandi samningur hans rennur út næsta sumar en Bartomeu sér hann framlengja um þrjú til fjögur ár í viðbót.

„Það er ekki ég sem er bara segja þetta. Messi hefur sagt það sjálfur að hann vilji klára ferilinn hjá Barcelona og það er eina félagið hans,“ sagði Bartomeu við beIN Sports.

„Ég er í engum vafa um að þegar hann klárar ferilinn sinn eftir þrjú til fjögur ár þá verði hann enn hjá Barcelona. Hann hefur verið hérna síðan hann var krakki og hann þekkir litina og sögu félagsins.“

„Hann er besti leikmaður í heimi. Ekki bara núna, heldur í sögu fótboltans. Hann er hjá Barcelona og hefur gefið það út að hann vilji vera hérna áfram.“

Annar leikmaður sem Bartomeu vill framlengja við er markvörðurinn Marc-Andre ter Stegen en samningur hans rennur út eftir tvö ár.

„Marc er frábær leikmaður og manneskja. Hann hefur sýnt það sem markvörður. Framtíð hans er að framlengja við Barcelona. Hann getur verið markvörður hér í mörg ár því hann er ungur. Þegar allt er liðið hjá munum við tala við Marc og ganga frá framlengingu,“ sagði Bartomeu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×