Vladimír Pútín Rússlandsforseti segir að heilbrigðisyfirvöld í landinu hafi lagt blessun sína yfir bóluefni sem þróað var í Rússlandi, og nú standi til að hefja fjöldaframleiðslu á efninu.
Forsetinn greindi frá þessu í morgun. Sömuleiðis segir hann að önnur dóttir sín hafi verið í hópi þeirra sem fyrst hafi verið bólusett gegn veirunni. Henni liði vel.
AP segir frá því að Pútín hafi greint frá þessu á ríkisstjórnarfundi í morgun. Sagði hann ítarlegar rannsóknir á efninu hafa verið framkvæmdar.
Rússnesk yfirvöld segja að heilbrigðisstarfsmenn, kennarar og fólk í áhættuhópi verði fyrst til að verða bólusettir.
Rússland er fyrsta landið til að skrá bóluefni gegn kórónuveirunni, en í frétt AP segir að margir vísindamenn, bæði í Rússlandi og annars staðar, hafi verið með efasemdir þar sem yfirleitt þurfi umfangsmeiri prófanir sem ná til fleiri og yfir lengri tíma, áður en bóluefni er skráð.