Fótbolti

Sveinn Aron og félagar færast nær ítölsku úrvalsdeildinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sveinn Aron Guðjohnsen gæti leikið í ítölsku úrvalsdeildinni á næsta tímabili.
Sveinn Aron Guðjohnsen gæti leikið í ítölsku úrvalsdeildinni á næsta tímabili. vísir/getty

Sveinn Aron Guðjohnsen og félagar í Spezia eru komnir í úrslitarimmu um sæti í ítölsku úrvalsdeildinni eftir sigur á Chievo í kvöld, 3-1. Sveinn Aron sat allan tímann á varamannabekknum.

Spezia tapaði fyrri leiknum gegn Chievo, 2-0, og einvígið fór því 3-3. En Spezia fór áfram þar sem liðið endaði ofar í deildinni en Chievo. Spezia var í 3. sæti en Chievo í því sjötta.

Í úrslitaeinvíginu um sæti í ítölsku úrvalsdeildinni mætir Spezia annað hvort Frosinone eða Pordenone. Seinni leikur þeirra fer fram annað kvöld. Pordenone er með 2-0 forystu eftir fyrri leikinn.

Úrslitaleikirnir um sæti í ítölsku úrvalsdeildinni fara fram 16. og 20. ágúst. Ljóst er að seinni leikurinn verður á heimavelli Spezia.

Sveinn Aron gekk í raðir Spezia frá Breiðabliki fyrir tveimur árum. Hann hefur leikið sextán leiki og skorað þrjú mörk á þessu tímabili. Samningur Sveins Arons við Spezia gildir til 2022.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×