Ferðamennirnir sem lentu í ógöngum í vélsleðaferð á Langjökli í gær eru nú á leið til Reykjavíkur með rútum á vegum ferðaþjónustufyrirtækisins sem gerði út ferðina. Aðgerðum í fjöldahjálparstöð sem opnuð var í Gullfosskaffi verður því senn lokið.
Ferðamennirnir, sem telja 39 manns auk um tíu leiðsögumanna, voru allir komnir í hús í fjöldahjálparstöðina um áttaleytið í morgun. Verið var að færa síðustu ferðamennina úr húsi snemma á tíunda tímanum.
„Aðgerðum hérna á svæðinu er að ljúka á næsta klukkutíma eða svo,“ segir Jón Grétar Guðmundsson aðgerðastjóri hjá Rauða krossinum í samtali við Vísi.
„Björgunarsveitir og sjúkralið eru að fara af vettvangi, Rauði krossinn verður aðeins lengur eftir á og svo tala ég við mína sjálfboðaliða og við tökum stöðuna.“
Gekk eins og smurð vél
Jón Grétar segir hópinn hafa verið fjölbreyttan, af nokkrum þjóðernum og á öllum aldri – sá yngsti sex ára. Þá segir hann aðgerðir í Gullfosskaffi hafa gengið afar vel en Rauði krossinn veitti þar sálræna aðstoð, mat og drykk og stóð fyrir fataúthlutun.
„Það gekk eins og smurð vél. Rauði krossinn er þaulvanur í þessu og okkur tókst rosalega vel. Við erum búin að styrkja mjög mikið okkar fólk á Suðurlandi þannig að við erum tilbúin í þetta. En fólki leið auðvitað eftir atvikum.“
Hópurinn verður fluttur til Reykjavíkur í rútum á vegum ferðaþjónustufyrirtækisins sem gerði út ferðina. Um er að ræða fyrirtækið Mountaineers of Iceland, samkvæmt heimildum Vísis.
Þrjú ár eru síðan hjón týndust í vélsleðaferð á Langjökli í ferð á vegum fyrirtækisins. Nú líkt og þá var farið í ferðina þrátt fyrir vonda veðurspá. Hjónunum voru á endanum dæmdar bætur í héraðsdómi vegna vanrækslu fyrirtækisins.
Enn er afar slæmt veður víða á landinu og á Suðurlandi en búið er að opna fyrir umferð um bæði Hellisheiði og Þrengsli, sem lokað var í gær vegna veðurs. Hópurinn frá Gullfossi ætti því að komast leiðar sinnar Reykjavíkur.