Innlent

„Óveður fram á kvöld“

Andri Eysteinsson skrifar
Aðstæður til aksturs eru víða erfiðar.
Aðstæður til aksturs eru víða erfiðar. Vísir/Frikki

Eftir hádegi mun úrkoma snúast úr snjó yfir í rigningu. Mun þá vaxa í ám og lækjum og ágætt er að huga að niðurföllum til þess að tryggja að vatn eigi greiða leið þar um. Þetta segir Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur en rætt var við Þorstein í fréttum Bylgjunnar.

„Vindur er vaxandi og kominn leiðinda skafrenningur og hálka á vegum hérna fyrir sunnan og við Faxaflóa. Það bætir í vind og veðrið nær hámarki undir hádegið,“ segir Þorsteinn.

Spáð hefur verið slæmu veðri um land allt og eru appelsínugular viðvaranir í gildi víða á landinu. Þorsteinn segir að veður geti orðið hvað verst við Reynisfjall, Eyjafjöll, Hafnarfjall og á Kjalarnesi.

„Einnig verður hvasst við norðanvert Snæfellsnesið í dag. Veðrið færist svo smám saman yfir allt landið en er verst við suður- og vesturströndina,“ segir Þorsteinn.

Veðrið nær hámarki á suðurlandi og höfuðborgarsvæðinu nú undir hádegið, en Þorsteinn segir að bálhvasst verði á norður- og austurlandi seinna í dag og gengur þar yfir með snjókomu eða slyddu.

Aö sögn Þorsteins má gera ráð yfir að veðrið verði allan daginn að ganga yfir landið. „Það má segja að það verði óveður fram á kvöld,“ segir Þorsteinn V. Jónsson veðurfræðingur.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×