Innlent

Vara við flughálku vegna væntanlegrar rigningar og hláku

Kjartan Kjartansson skrifar
Viðvaranir sem gilda á landinu frá klukkan 23:00 í nótt til klukkan 6:00 á sunnudagsmorgun.
Viðvaranir sem gilda á landinu frá klukkan 23:00 í nótt til klukkan 6:00 á sunnudagsmorgun. Veðurstofan/skjáskot

Hvassviðri sem skellur á mestöllu landinu í kvöld og nótt fylgir rigning og hláka sem getur myndað flughálku þegar svell eða þjappaður snjór blotnar. Gul- og appelsínugul viðvörun tekur gildi á landinu í kvöld og varir fram á morgun.

Veðurstofan spáir vestlægri eð breytilegri átt 3-10 m/s í dag en hvassara austanlands fram yfir hádegi. Í kvöld á aftur á móti að hvessa, þykkna upp og hlýna. Gert er ráð fyrir suðaustan og sunnan 18-28 m/s í nótt, hvössustu í vindstrengjum á Norðurlandi.

Hvassviðrinu fylgir talsverð rigning en úrkomuminna á að vera um landið norðaustanvert. Appelsínugul viðvörun vegna sunnan eða suðaustan storms tekur gildi fyrir Vestfirði, Breiðafjörð, Norðurland og miðhálendið klukkan 23:00 í kvöld og gildir til klukkan sex í fyrramálið. Við Faxaflóa og Suðurland verður gul viðviðvörun vegna suðaustan hvassviðris eða storms með mikilli rigningu.

Í athugasemd veðurfræðings á vef Veðurstofunnar er varað við því að leysingar- og regnvatn þurfi að komast leiðar sinnar og því þurfi að ganga úr skugga um að fráveitukerfi virki sem skyldi til að forðast vatnstjón. Flughálka geti myndast þegar svell og þjappaður snjór blotnar. Þegar hvassviðri bætist við geti aðstæður til aksturs orðið varasamar.

Á morgun á vindur að snúast í suðvestan 15-23 m/s og áfram á að vera vætusamt með hita á bilinu fimm til tíu stig. Slydduél verða á vesturhelmingi landsins annað kvöld og kólnandi veður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×