Veðurstofan vekur athygli á gulum og appelsínugulum viðvörunum sem taka gildi í nokkrum landshlutum seint á laugardagskvöld. Appelsínugular viðvaranir eru í gildi fyrir Breiðafjörð, Vestfirði, Norðurland eystra, Strandir og Norðurland vestra og Miðhálendið. Gular viðvaranir eru í gildi fyrir höfuðborgarsvæðið, Suðurland og Faxaflóa.
Spáð er suðaustan stormi með mikilli rigningu eða slyddu og hlýnandi veðri, en heldur hvassara og snjókoma til fjalla í fyrstu. Á Norðurlandi má jafnframt búast við „mjög hvössum og varhugaverðum“ vindhviðum við fjöll, 35-45 m/s, að því er fram kemur á vef Veðurstofunnar.
Þá má búast má við auknum leysingum og afrennsli, einnig vatnavöxtum í ám og lækjum. Mikil hálka getur jafnframt myndast þar sem rignir á klakabunka eða þjappaðan snjó. Þá er mikilvægt að hreinsa frá niðurföllum til að forðast vatnstjón vegna rigningar og leysingavatns.
Í nokkrum landshlutum eru víðtækar samgöngutruflanir líklegar og ekkert ferðaveður er á meðan viðvaranir eru í gildi.
„Svo viljum við benda á að aðfaranótt sunnudags hlánar og verður frostlaust til fjalla. Snjórinn getur orðið óstöðugari og reiknað er með að snjóflóð geti fallið. Snjórinn ætti svo að styrkjast þegar kólnar aftur,“ segir í færslu á Facebook-síðu Veðurstofunnar.
Þá eru gular viðvaranir í gildi á Austurlandi að Glettingi, Austfjörðum og Suðausturlandi á morgun. Viðvaranirnar taka gildi síðdegis og standa yfir þangað til í fyrramálið. Varað er við norðvestan stormi 18-23 m/s og hvössum vindstrengjum við fjöll, 30-35 m/s. Varasamt verður að vera á ferðinni, einkum fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind.