Handbolti

Leikmaður sendir danska landsliðsþjálfaranum pillu

Anton Ingi Leifsson skrifar
Morten Olsen í leiknum gegn Ungverjalandi.
Morten Olsen í leiknum gegn Ungverjalandi. vísir/epa

Heims- og Ólympíumeistarar Dana eru úr leik á EM 2020 en þeir enduðu með þrjú stig í riðli okkar Íslendinga. Það dugði ekki til.

Danska pressan hefur skrifað mikið um gengið á mótinu og eitt af því er hvernig Nikolaj Jakobsen, landsliðsþjálfari, hefur ekki fundið pláss fyrir Morten Olsen.

Olsen var ekki í leikmannahópnum gegn Íslandi, var kallaður inn gegn Ungverjum þar sem hann spilaði nokkrar mínútur en sat svo allan tímann á bekknum gegn Rússum í gær.

Í síðari hálfleiknum í gær kölluðu stuðningsmenn Dana nafn Olsen en hann fékk ekki að koma inn á völlinn.

Hann virtist allt annað en sáttur á leið af vellinum eftir leikinn og barði í eitt og annað. Danska pressan spurði hann hvaða þýðingu það hefði að stuðningsmenn hefðu kallað nafn hans á tímapunkti í leiknum.

„Það hefur þá þýðingu að það voru einhverjir sem gjarnan vildu sjá mig spila,“ sagði Olsen og strunsaði jafnharðan út úr blaðamannasvæðinu. 







Klárt skot á þjálfarann Nikolaj Jakobsen sem svaraði svo fyrir sig.

„Ég hefði getað sett Olsen inn í síðari hálfleik en við vorum að spila okkur í góð færi. Mér fannst Mikkel stýra sjö gegn sex mjög vel og Lauge og Damgaard spiluðu vel. Það var engin ástæða til þess að skipta.“


Tengdar fréttir

Danir kvöddu með sigri

Danmörk vann þriggja marka sigur á Rússland í þýðingarlausum leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×