Fótbolti

Yfirgefur AC Milan án þess að hafa spilað deildarleik fyrir félagið

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Caldara hefur leikið tvo landsleiki fyrir Ítalíu.
Caldara hefur leikið tvo landsleiki fyrir Ítalíu. vísir/getty

Ítalski varnarmaðurinn Mattia Caldara er genginn til liðs við uppeldisfélag sitt Atalanta eftir vægast sagt misheppnaða dvöl hjá AC Milan og áður Juventus.

Caldara er 25 ára gamall og sló í gegn með Atalanta í ítölsku úrvalsdeildinni tímabilið 2016-2017. Hann var í kjölfarið keyptur til Juventus á tæpar 30 milljónir evra en lánaður um leið til baka til Atalanta þar sem hann hélt áfram að spila vel.

Hann náði aldrei að leika deildarleik fyrir Juventus þar sem Caldara var hluti af félagaskiptum Leonardo Bonucci frá AC Milan til Juventus í lok sumars 2018. Þá gerði Caldara fimm ára samning við AC Milan og var ætlað stórt hlutverk á San Siro.

Caldara náði hins vegar aldrei að festa sig í sessi hjá AC Milan og spiluðu meiðsli þar inn í. Hann yfirgefur nú félagið án þess að hafa leikið deildarleik fyrir það og er kominn aftur heim til Atalanta sem situr í 4.sæti Serie A um þessar mundir. 

Atalanta einnig enn með í Meistaradeild Evrópu þar sem liðið mætir Valencia í 16-liða úrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×