Appelsínugul veðurviðvörun er í gildi á Vestfjörðum fram eftir degi, einkum norðan til. Búast má við vindhraða upp á um 18-25 m/s með snjókomu eða slyddu fram undir hádegi. Annars staðar á á landinu má búast við suðvestan átt en hvassast verður vestanlands.
Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að suðvestan og vestanlands megi búast við suðvestan stormi og kólnandi veðri með morgninum en gul veðurviðvörun er í gildi fyrir Suðurland, Vesturland og Miðhálendið í dag.
Segir að lengst af verði þurrt á norðaustur- og Austurlandi og lægi þar síðdegis eins og annars staðar.
Heldur rólegra veðri er spáð á morgun, sunnudag. Næsta lægð kemur yfir landið á mánudag en áhrifa hennar verður mest að gæta á þriðju- og miðvikudag.

