Ragnhildur Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi Novator, hyggst brátt láta af störfum eftir um tíu ár í starfi.
Þetta kemur fram í frétt Markaðarins í morgun. Novator er fjárfestingafélag Björgólfs Thor Björgólfssonar, og hefur Ragnhildur meðal annars komið fram sem talskona Björgólfs hér á landi og komið skoðunum hans og gögnum á framfæri í málum sem tengjast hruninu.
Ragnhildur segir í samtali við Vísi að starfslokin séu gerð í sátt og samlyndi og að nokkrar vikur séu síðan þetta hafi verið rætt. Hún muni þó starfa hjá Novator fram á vor og ljúka ákveðnum verkefnum.
Hún segir tímann hjá Novator hafa verið fjörugan og lærdómsríkan. „Þetta hafa verið mjög misjöfn og krefjandi verkefni sem ég hef tekist á við. Ég byrja þarna skömmu eftir hrun, í mars 2010. Það hafa verið brekkur en líka mjög skemmtilegt. Þetta eru mikil viðfangsefni sem Björgólfur og Novator hafa tekist á við og náð að vinna sig upp úr,“ segir Ragnhildur.
Hún segist ekki hafa ákveðið hvað muni taka við, en að það verði „eitthvað skemmtilegt“.
Ragnhildur á langan feril í fjölmiðlum að baki en hún starfaði lengi á Morgunblaðinu, bæði sem blaðamaður og fréttastjóri.