Innlent

Frost gæti farið niður í tveggja stafa tölur

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Kort Veðurstofunnar fyrir hádegi dagsins í dag.
Kort Veðurstofunnar fyrir hádegi dagsins í dag. Veðurstofa Íslands

Gera má ráð fyrir austan 5 til 13 metrum á sekúndu víða á landinu í dag. Hvassast verður á suðurlandi. Frost verður víða núll til tíu stig, en kaldara í innsveitum. Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar.

Hægari vindur verður norðan til, en þykknar þó upp eftir því sem tekur að líða á daginn.

Á morgun má gera ráð fyrir skýviðri, snjókomu með köflum sunnanlands og éljum við austurströndina. Áfram verður kalt í veðri, en ekkert frost syðst á landinu.

Á þriðjudag verður úrkomulítið, að minnsta kosti fyrri partinn. Vaxandi sunnanátt verður síðdegis og búast má við snjókomu eða slyddu og síðar rigningu, sérstaklega sunnan- og vestanlands. Þá tekur að hlýna í veðri.

Veðurhorfur á landinu næstu daga, samkvæmt Veðurstofu Íslands:

Á þriðjudag:

Vestan 3-8, skýjað og úrkomulítið, og frost um land allt. Gengur í sunnan 8-15 seinni partinn með snjókomu og síðar slyddu eða rigningu, einkum sunnan- og vestan til á landinu, og hlýnandi veðri.

Á miðvikudag og fimmtudag:

Sunnanátt og rigning með köflum, einkum sunnan- og vestanlands. Hiti víða 4 til 8 stig, en kólnar heldur seint á fimmtudag.

Á föstudag og laugardag:

Suðvestanátt og skúrir, og síðar él, en lengst af þurrt norðaustan til á landinu. Hiti nálægt frostmarki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×