Vonast er til þess að næstu dagar muni leiða í ljós hver verður næsti ríkissáttasemjari. Að sögn Gissurs Péturssonar, ráðuneytisstjóra í félagsmálaráðuneytinu, er skipunarferlið á lokastigi. Helga Jónsdóttir hefur verið settur ríkissáttasemjari síðan Bryndís Hlöðversdóttir, fyrrverandi ríkissáttasemjari, tók við embætti ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu um áramótin.
Á morgun verða tveir mánuðir frá því að umsóknarfrestur fyrir embættið rann út, en alls sóttu sex um stöðuna. Aðspurður um hvað skýri tveggja mánaða ráðningarferli segir Gissur að það hafi tekið sinn tíma að ljúka hæfnismati, viðtölum og samráði „við hlutaðeigandi.“ Það er Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, sem skipar í stöðuna. Ráðgefandi hæfnisnefnd sem skipuð var í tengslum við ráðninguna skilaði tillögum sínum til ráðherrans fyrir nokkrum vikum.
Sem fyrr segir sóttu sex um stöðu ríkissáttasemjara; Aðalsteinn Leifsson framkvæmdastjóri, Gylfi Arnbjörnsson, hagfræðingur og fyrrverandi forseti ASÍ, Herdís Hallmarsdóttir lögmaður, Lara De Stefano þjónn, Ólafur Þorsteinn Kjartansson ráðgjafi og Rannveig S. Sigurðardóttir aðstoðarseðlabankastjóri.
Ráðgefandi hæfnisnefnd skipuðu þau Drífa Snædal, forseti ASÍ, Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins auk fyrrnefnds Gissurar sem var formaður nefndarinnar.
Skipunarferli ríkissáttasemjara „á lokastigi“

Tengdar fréttir

Helga verður ríkissáttasemjari um tíma
Helga Jónsdóttir hefur tekið við starfi ríkissáttasemjara þar til búið er að ráða í stöðuna.

Sex sækjast eftir starfi ríkissáttasemjara
Félagsmálaráðuneytið hefur birt lista yfir umsækjendur um starf ríkissáttasemjara.