Þingvallasveit var talin afdalasveit í alfaraleið af því að hún lokaðist á veturna, og mjög fáir á ferðinni, en mjög margir á sumrin, og þá aðallega Íslendingar. Þannig lýstu íbúar lífinu þar á árum áður í þættinum Um land allt á Stöð 2.

„Það var undantekning ef maður sá útlending og það var ófært allan veturinn. Það var aldrei mokað. Og fyrstu árin okkar hérna þá var aldrei mokað austur á veturna. Þannig að það áttu allir góða jeppa og hjökkuðu,“ sagði Rósa Jónsdóttir, bóndi í Mjóanesi.
Það var bara mokað ef opna þurfti leiðina til að sýna tignum gestum Þingvelli. Sveinbjörn Einarsson, bóndi á Heiðarbæ, lýsti því þegar von var á aðalritara Sameinuðu þjóðanna í heimsókn eitt árið. Þá var byrjað að moka með heflum og ýtum. Aðalritarinn lét samt bíða eftir sér en kom þó fyrir rest.

Sveinbjörn á Heiðarbæ og þau Jóhann og Rósa í Mjóanesi lýsa því einnig hvernig Þingvallavatn var nýtt sem samgönguleið, á bátum á sumrin og, eftir að vatnið lagði á veturna, á skautum og sleðum. Mjóaneshjónin ræddu einnig um veiðina.
Kynningarstiklu næsta þáttar, sem er um Grafning, má sjá hér: