Bilun er í línu Landsnets og af þeim sökum eru íbúar austan Þjórsár beðnir um að fara sparlega með rafmagn. Á sjötta þúsund heimili og vinnustaðir misstu rafmagn vegna óveðursins í gær.
Enn eru rafmagnstruflanir á landinu eftir óveðrið sem gekk yfir landið í gær. Íbúar á Suðurlandi austan Þjórsár voru beðnir um að spara rafmagn vegna bilana í kerfi Landsnets í morgun. RARIK segir að langflestir þeirra þúsunda sem misstu rafmagn á svæði fyrirtækisins í gær séu komnir með það aftur.
Um hundrað rafmagnsstaurar RARIK brotnuðu í óveðrinu og var einnig eitthvað um vírslit og sláarbrot, að því er segir í stöðuyfirliti á vefsíðu fyrirtækisins í morgun. Alls misstu um 5.600 heimili og vinnustaðir rafmagn, flestir á Suðurlandi og Suðausturlandi. Langflestir séu komnir með rafmagn aftur. Einn bær í Hvalfirði er sagður rafmagnlaus en að gert verði vil bilun í dag ef aðstæður leyfa.
Á vef Landsnets kemur fram að Hellulína 1 hafi leyst út þegar reynt var að setja hana inn að lokinni viðgerð í morgun. Áfram er leitað að bilun og því verði áfram „takmarkaðir afhendingarmöguleikar raforku“ á austanverðu Suðurlandi og í Vestmannaeyjum.
Unnið var við viðgerðir hjá RARIK á Suðurlandi til klukkan fimm í morgun og var þráðurinn tekinn aftur upp klukkan átta. Í Vestur-Skaftafellssýslu er rafmagnslaust fyrir neðan Eystra-Hraun en töluvert er sagt af skemmdum einangrum og fleiru á þeim slóðum. Einnig er rafmagnslaust á Kaldrananesi og sumarhúsum í Neðri-Dal í Mýrdal. Um 26 staurar hafi brotnað milli Álftavers og Hrífuness. Rafstöð verði sett upp við Laufskálavörðu takist ekki að spennusetja línuna fljótlega.
Í Rangárvallasýslu voru nokkrir bæir enn rafmagnslausir í morgun en vonast var til þess að rafmagn kæmist aftur á fljótt. Sums staðar var þegar búið að setja upp varaaflstöð eða það stóð til.