Óhætt er að segja að hvassviðrið við Reykjavíkurhöfn og Hörpu hafi verið mikið fyrir hádegi í dag. Svo mikið að þeir ferðamenn sem ákváðu að vaða út í óveðrið mættu á tíma ofjarli sínum.
Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari Vísis, hefur verið á ferðinni í höfuðborginni í morgun og fylgst með veðurofsanum. Einn ferðamaður reyndi að komast leiðar sínar við Hörpu en lenti í miklum vandræðum eins og sjá má á myndunum að neðan.
Hún var fljót á fætur eftir baráttuna við vindinn og afþakkaði aðstoð við að komast aftur inn í Hörpu.
Íbúar á höfuðborgarsvæðinu hafa margir hverjir haldið sig heima í morgun og þannig farið eftir tilmælum frá almannavörnum vegna rauðrar viðvörunar. Minnti Reykjavík á draugaborg í morgun en einhverjir ferðamenn ætluðu að kynnast Íslandi í veðurham.





