Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) segir að heimsbyggðin þurfi að gera meira til þess að undirbúa sig undir mögulegan heimsfaraldur Covid19-kórónaveirunnar.
Forsvarsmenn stofnunarinnar segja það enn of snemmt að skilgreina útbreiðslu veirunnar sem heimsfaraldur en að ríki heims ættu að vera á undirbúningsstigi.
Veirufaraldur hlýtur skilgreininguna heimsfaraldur þegar smitsjúkdómur er farinn að smitast auðveldlega á milli fólks í mörgum heimshlutum.
Mikil útbreiðsla veirunnar í Suður-Kóreu, Ítalíu og Íran er sögð valda áhyggjum en langflest smit hafa samt sem áður greinst í Kína, þar sem veiran á upptök sín.
Þar hafa um 77 þúsund manns smitast af veirunni og 2.600 látið lífið af völdum hennar en tala nýrra tilfella þar í landi fer nú lækkandi.
Yfir 1.200 veirusmit hafa nú verið staðfest utan Kína í um þrjátíu löndum. Þá hafa rétt yfir tuttugu manns látið lífið vegna hennar utan Kína. Greint var frá þremur nýjum dauðsföllum á Ítalíu í dag og hafa nú sex þar látist vegna veirunnar.