Veður var með „versta móti“ í nótt, þar sem varðskipið Þór var á siglingu djúpt undan Suðausturlandi. Myndband sem Landhelgisgæslan birtir á Facebook í dag sýnir ölduhæðina og hamaganginn í sjónum sem gekk yfir skipið.
„Ölduhæð náði 10 metrum og vindurinn um 50 hnútum í suðvestanátt,“ segir færslu Landhelgisgæslunnar.
„Í hamaganginum fékk skipið á sig brot sem náði upp að léttbát skipsins sem er í töluverðri hæð yfir sjávarmáli.“
Myndbandið, sem sjá má hér fyrir neðan, sýnir hvað kraftur ægis er mikill þegar hann er í þessum ham, líkt og segir í færslunni.