Bankastjóri Arion banka segir það stefnu bankans að krefja birgja um að taka mið af umhverfis- og loftslagsáhrifum í sinni starfsemi. Þetta kemur fram í ávarpi Benedikts Gíslasonar bankastjóra í ársskýrslu bankans.
Félög sem bankinn er með í söluferli hafi haft neikvæð á áhrif á afkomu ársins sem var 1,1 milljarður. Unnið verði að því á árinu að leiða söluferli félaganna til lykta.
Á árinu 2020 ætlar bankinn, að sögn Benedikts, að meta lánasafn bankans út frá grænum viðmiðum og setja bankanum markmið í þeim efnum.
„Við munum í auknum mæli beina sjónum okkar að fjármögnun verkefna sem snúa að sjálfbærri þróun og grænni innviðauppbyggingu. Að auki munum við í mati á okkar birgjum gera þá kröfu til þeirra að þeir taki mið af umhverfis- og loftslagsáhrifum í sinni starfsemi,“ segir Benedikt.
„Við gerum okkur grein fyrir því að það er engin ein einföld lausn á loftlagsvánni. Það er hins vegar ljóst að ráðast þarf í miklar fjárfestingar í grænni innviðauppbyggingu og slíkar fjárfestingar eins og aðrar verða að skila þeim sem leggja til fjármagnið ásættanlegum arði,“ segir Benedikt.
Samvinna stjórnvalda, fyrirtækja, háskóla, frumkvöðla og fjármálafyrirtækja um heim allan sé sá grundvöllur sem byggja þurfi á.
„Á árinu undirgekkst bankinn meginreglur Sameinuðu þjóðanna um ábyrga bankastarfsemi ásamt um 130 öðrum bönkum frá ýmsum löndum. Meginreglurnar fela í sér ríka áherslu á loftslagsmál og grundvallast á virku samstarfi banka sem við bindum miklar vonir við.“