Hlutirnir hafa verið fljótir að breytast í ítölskum íþróttaheimi síðustu daga og nú hefur íþróttamálaráðherra landsins kallað eftir því að hlé verði gert á keppni í ítölsku A-deildinni í fótbolta, vegna kórónuveirunnar.
Íþróttamálaráðherrann, Vincenzo Sapdafora, gaf frá sér yfirlýsingu aðeins skömmu áður en fyrsti leikur dagsins átti að hefjast, á milli Parma og SPAL. Leikmenn stóðu hreinlega í göngunum og voru á leið inn á völl en var gert að snúa við.
Áður hafði verið sett á áhorfendabann á fótboltaleikjum á Ítalíu, og í nótt var sett á strangt ferðabann víða um Norður-Ítalíu. Leik Parma og SPAL var fyrst frestað um 30 mínútur og svo 15 mínútur, en nú á leikurinn að hefjast kl. 12.45, þvert á vilja íþróttamálaráðherra.
„Það er ekkert vit í því að á meðan að við biðjum fólkið í landinu um gríðarlegar fórnir til að hefta útbreiðslu veirunnar, þá setjum við heilsu leikmanna, þjálfara, dómara og stuðningsmanna, sem munu auðvitað koma saman til að horfa á leikina, bara til að vernda hagsmuni þeirra sem eru í kringum íþróttina,“ sagði Sapdafora og sagði það skyldu forseta ítalska knattspyrnusambandsins að grípa inn í.
Fimm leikir eru á dagskrá í ítölsku A-deildinni í dag, meðal annars stórleikur Juventus og Inter sem ætlunin er að verði í beinni útsendingu kl. 19.45 á Stöð 2 Sport.
Serie A have decided to PLAY the match Parma-Spal and also the other today’s matches (also Juventus-Inter). #SerieA#Covid19
— Fabrizio Romano (@FabrizioRomano) March 8, 2020