Fótbolti

Forseti UEFA spenntur fyrir því að taka alfarið upp fyrirkomulag Meistaradeildarinnar í ár

Ísak Hallmundarson skrifar
Bayern hefur farið á kostum í Meistaradeildinni í ár.
Bayern hefur farið á kostum í Meistaradeildinni í ár. getty/M. Donato

Meistaradeild Evrópu hefur eins og svo margt annað farið fram með óhefðbundnu sniði í ár. 

Áður fór keppnin fram þannig að leikið var heima og að heiman frá 16-liða úrslit og fram yfir undanúrslit en úrslitaleikurinn sjálfur leikinn á hlutlausum velli í lok tímabilsins. 

Í ár fór keppnin fram í Portúgal frá og með 8-liða úrslitum þar sem einn leikur var látinn duga til að skera úr um hvaða lið færi áfram í keppninni. Aleksander Ceferin, forseti UEFA, segir að þessi leið hafi skapað meiri spennu heldur en hin hefðbundna leið þar sem spilaðir voru tveir leikir í hverri umferð.

„Við neyddumst til að fara nýja leið núna en að sama skapi höfum við uppgötvað eitthvað nýtt. Við munum hafa þetta í huga í framtíðinni, ekki spurning,“ sagði Ceferin.

Hann sagði að þegar aðeins einn leikur fer fram á milli liðanna þurfi liðin að sækja að marki.

„Ef þetta er einn leikur og annað liðið skorar þarf hitt að skora eins fljótt og mögulegt er. Ef það eru tveir leikir er alltaf hægt að treysta á næsta leik.“

Núverandi reglur um keppnina eru í gildi til ársins 2025 og kveða á um að leika skuli tvo leiki, einn heimaleik á hvert lið, frá 16-liða úrslitum þar til í úrslitaleiknum. Umræður munu fara fram seinna á þessu ári um hvernig fyrirkomulag keppninnar verður eftir það en keppnin í ár var undantekning frá gildandi reglum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×