Grétar Árnason, Hjálmur Hjálmsson og Styrmir Geir Jónsson hafa verið ráðnir til starfa hjá ráðgjafasviði KPMG. Allir störfuðu þeir áður hjá Capacent.
Í tilkynningu kemur fram að Grétar hafi þegar hafið störf og mun hann sérhæfa sig í ráðgjöf tengdri upplýsingatækni með sérstaka áherslu á viðskiptagreind og gagnahögun.
„Frá árinu 2011 til 2020 hefur Grétar starfað sem ráðgjafi hjá Capacent með áherslu á innleiðingu á Qlik viðskiptagreindarhugbúnaði ásamt öðrum verkefnum tengd viðskiptagreind. Meðal annarra verkefna hefur hann unnið að uppbyggingu vöruhús gagna, skýrslu gerð og forritun.
Grétar lauk námi í kerfisfræði frá HR 2001 og hefur starfað við upplýsingatækni síðan þá.
Hjálmur Hjálmsson
Hjálmur Hjálmsson hefur hafið störf á ráðgjafasviði KPMG og mun Hjálmur sérhæfa sig í ráðgjöf um breytta starfshætti og hagnýtingu tækni, með áherslu á innleiðingu á Microsoft lausnum. Hjálmur hefur um árabil verið leiðandi í breytingarferli hjá opinberum aðilum og haldið fjölda fyrirlestra og námskeiða fyrir stjórnendur um breytta starfshætti, með sérstaka áherslu á hagnýtingu á tækni og teymisvinnu. Þá hefur Hjálmur aðstoðað fyrirtæki og stofnanir í stafrænum umskiptum.
Hjálmur starfaði áður sem ráðgjafi hjá Capacent og hefur auk þess unnið að verkefnastýringu og ráðgjöf í stafrænum umskiptum hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
Hann er með B.Ed gráðu í kennslufræðum frá Háskóla Íslands og M.Sc. gráðu í Vatnafræði og Vatnajarðfræði frá Stockholm University.
Styrmir Geir Jónsson
Styrmir Geir Jónsson hefur hafið störf á ráðgjafasviði KPMG og mun Styrmir sérhæfa sig í ráðgjöf tengdri upplýsingatækni með sérstaka áherslu á öryggismál skýja- og Microsoft lausna.
Styrmir hefur starfað í upplýsingatækni frá árinu 1994, fyrst hjá Varnarliðinu í rekstrar- og öryggismálum fram til ársins 2006, og svo til skamms tíma sem ráðgjafi hjá Opnum Kerfum. Frá árinu 2008 starfaði Styrmir sem ráðgjafi og upplýsingatæknistjóri hjá Capacent á Norðurlöndunum,“ segir í tilkynningu.