Erlend kortavelta í júlí er tæpur þriðjungur af því sem var í fyrra. Þó er júlí skásti mánuðirinn frá því í mars.
Forstöðumaður Rannsóknaseturs verslunarinnar segir veltuna lækka nú dag frá degi eftir að takmarkanir við landamæri voru hertar.
Erlend kortavelta nam rúmum tíu milljörðum í júlí. Fyrir utan mars til júní á þessu ári hefur ekki verið lægri velta í einum mánuði frá janúar 2016. Minnstur samdráttur var í verslun en þó var veltan ríflega helmingi minni en fyrir ári. Í gistiþjónustu var erlenda kortaveltan aðeins fjórðungur miðað við síðasta ár, þriðjungur í veitingaþjónustu og hjá bílaleigum dróst veltan saman um tæplega sjötíu prósent.
Greiningin er gerð af Rannsóknarsetri verslunarinnar. Árni Sverrir Hafsteinsson, forstöðumaður þar, segir enginn flokk ferðaþjónustunnar koma vel út í sumar.
„Ferðaþjónustan hefur verið við alkul frá því í mars - og júlí var þó töluvert skárri fyrir ferðaþjónustuna en hefur verið framan af ári. En það er ekkert á við það sem hefði verið ef faraldurinn hefði ekki skollið á.“

Dönsk greiðslukort veltu mestu í júlí, þar á eftir þýsk og svo bresk. Íslensk greiðslukort hafa aldrei velt eins miklu í einum mánuði.
„Innlenda veltan hefur sýnt mikla neyslu. Íslendingar eru væntanlega að eyða þeim peningum sem annars hefðu farið í ferðalög í innlenda verslun og þjónustu – aldrei verið hærri en núna í júlí.“
Jafnast þetta á við jólaverslunina?
„Já, þetta er stærri tala en í desember síðastliðinn í heildina en í verslun er talan sambærileg, eða í kringum 45 milljarða, en það er ekkert sem við sjáum oft í júlí - júlí er yfirleitt ekki sprækur – þannig að hann jafnist á við desember en það var hann núna.“
En neysla Íslendinga bætir ekki upp tjónið fyrir ferðaþjónustuna,
Árni Sverrir segir þetta aðeins dropa í hafið og að auki virðist erlenda neyslan á hraðri niðurleið.
„Við sjáum það að það lækkar í kortunum dag frá degi, það sem kemur inn, frá því að samkomutakmarkanir voru hertar,“ segir Árni Sverrir Hafsteinsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs verslunarinnar.