Fótbolti

Messi lítur ekki lengur á sig sem leikmann Barcelona og mætti ekki á æfingu í dag

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lionel Messi er staðráðinn í því að komast burt frá Barcelona.
Lionel Messi er staðráðinn í því að komast burt frá Barcelona. getty/Manu Fernandez

Lionel Messi lítur ekki lengur á sig sem leikmann Barcelona og mætti ekki á æfingu hjá liðinu í dag. Sky Sports greinir frá.

Messi vill komast frá Barcelona, félaginu sem hann hefur leikið með allan sinn feril. Hann hefur m.a. verið orðaður við Manchester City þar sem hann myndi hitta fyrir Pep Guardiola sem þjálfaði hann hjá Barcelona.

Faðir Messi, Jorge, mun funda með forráðamönnum Barcelona á miðvikudaginn þar sem framtíð sonar hans verður til umræðu.

Í samningi Messi við Barcelona, sem rennur út næsta sumar, er riftunarákvæði upp á litlar 700 milljónir evra. Spænska úrvalsdeildin hefur blandað sér í málið og segir útilokað að Messi fái að fara frítt frá Barcelona.

Messi er fyrirliði og markahæsti leikmaður í sögu félagsins með 634 mörk í öllum keppnum. Hann hefur tíu sinnum orðið Spánarmeistari með Barcelona og fjórum sinnum unnið Meistaradeild Evrópu.

Auk Manchester City hefur argentínski snillingurinn verið orðaður við Paris Saint-Germain og Inter.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×