Daníel Geir Moritz, formaður meistaraflokksráðs ÍBV, segir að knattspyrnuráð ÍBV hafi sent erindi á mótanefnd KSÍ vegna leikjaniðurröðun Mjólkurbikarsins.
Daníel segir frá því á Twitter-síðu sinni að ÍBV spili ekki í átján daga áður en liðið spilar undanúrslitaleik sinn í bikarnum.
Önnur lið í undanúrslitunum, það er að segja þá liðin í Pepsi Max deildinni, munu spila fjórum dögum áður og segir Daníel að þetta séu vissulega snúnir tímar en lið í bikar verða að sitja við sama borð.
„Knattspyrnuráð ÍBV búið að senda erindi á mótanefnd og vonir bundnar við eðlilega niðurstöðu,“ skrifaði Daníel.
ÍBV tryggði sér sæti í undanúrslitunum með 2-1 sigri á Fram en undanúrslitin fara fram 4. nóvember.
Hinir þrír leikirnir í átta liða úrslitunum fara fram 10. september en þá mætast FH og Stjarnan, Valur og HK og Breiðablik og KR.
ÍBV leikur sinn síðasta leik í Lengjudeildinni 17. október svo þá liða átján dagar þangað til að kemur að undanúrslitunum í Mjólkurbikarnum.
18 dagar á milli síðasta deildarleiks ÍBV og leiks í undanúrslitum. 4 dagar hjá öðrum liðum. Vissulega snúnir tímar en lið í bikar verða að sitja við sama borð. Knattspyrnuráð ÍBV búið að senda erindi á mótanefnd og vonir bundnar við eðlilega niðurstöðu #fotboltinet #ksí
— Daníel Geir Moritz (@DanelGeirMoritz) August 31, 2020