Fótbolti

Úrslitastund í Messi-málinu í dag

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Messi-feðgarnir í réttarsal þegar Lionel Messi var kærður fyrir skattalagabrot.
Messi-feðgarnir í réttarsal þegar Lionel Messi var kærður fyrir skattalagabrot. getty/Alberto Estevez

Framtíð Lionels Messi gæti skýrst frekar í dag en faðir hans og umboðsmaður, Jorge, á þá fund með forráðamönnum Barcelona, þ.á.m. Josep Maria Bartomeu, forseta félagsins.

Messi hefur óskað eftir því að fara frá Barcelona og hefur ekki mætt á æfingar hjá liðinu síðustu daga.

Jorge Messi kom til Barcelona í morgun en vildi lítið tjá sig um mál sonar síns þegar blaðamenn, sem biðu eftir honum fyrir utan flugvöllinn, óskuðu eftir því.

Samkvæmt heimildum ESPN ætlar Jorge að fara þess á leit við Barcelona að sonur sinn fái að fara frítt frá félaginu. Bartomeu vill hins vegar bjóða Messi nýjan tveggja ára samning við Barcelona.

Lögfræðingateymi Messi lítur svo á að Messi hafi ógilt samning sinn við Barcelona þegar hann óskaði eftir því að fá að fara frá félaginu í síðustu viku.

Barcelona vill hins vegar meina að klásúlan í samningi Messi, að hann gæti farið frítt frá félaginu í lok hvers tímabils, hafi runnið út í júní. Félagið lítur svo að Messi sé með samning til 2021 og til að komast frá því verði annað félag að borga riftunarverð í samningi Argentínumannsins. Það hljóðar upp á 700 milljónir evra.

Messi hefur verið sterklega orðaður við Manchester City þar sem hans gamli stjóri hjá Barcelona, Pep Guardiola, heldur um stjórnartaumana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×