Katrín Tanja Davíðsdóttir er farin að telja niður í heimsleikanna í CrossFit þar sem hún verður ein af þrjátíu hraustustu konum heims sem keppa um heimsmeistaratitilinn.
Katrín Tanja Davíðsdóttir ætlaði ekki að taka þátt í heimsleikunum þegar lætin voru í mest í kringum Greg Glassman í sumar en nú er allt annað hljóð í íslensku CrossFit stjörnunni sem telur niður dagana í heimsleikana sem verða hennar áttundu á ferlinum.

Eric Roza, nýr eigandi CrossFit, hefur þegar gerbreytt öllu andrúmsloftinu innan CrossFit samtakanna og það verður fróðlegt að sjá hvernig heimsleikarnir koma út í miðjum kórónuveirufaraldri.
Katrín Tanja tók áhættu með sinn feril með því að tala gegn fyrrum eiganda en hún ásamt öðrum fengu nauðsynlegar breytingar í gegn. Nú fær hún því aftur tækifæri til að keppa um heimsmeistaratitilinn.
Katrín Tanja hefur tvisvar orðið heimsmeistari í CrossFit, síðast árið 2016, en hún hefur endað með fimm efstu á síðustu fimm heimsleikum sem er stórkostlegur árangur. Katrín Tanja þarf að endurtaka það núna ætli hún að komast í úrslitin.
Katrín Tanja hefur æft mjög vel í sumar eins og fylgjendur hennar hafa fengið að sjá á samfélagsmiðlum en það kemur líka annað í ljós. Það er nefnilega líka mikið fjör á æfingunum hjá Katrínu Tönju þessa dagana og gleðin brýst fram með ýmsum hætti.
Katrín Tanja og þjálfari hennar Ben Bergeron settu bæði inn myndband á Instagram síður sínar þar sem sjá má stemmninguna á æfingunum.
Katrín Tanja setti inn myndband af sér dansa í upphitun fyrir æfingu en Ben Bergeron setti inn myndband þar sem má sjá Katrínu Tönju og æfingafélaga hennar syngja og dansa með þekktu Whitney Houston lagi.
Það fer ekkert á milli mála að það er gaman að æfa með Katrínu Tönju og félögum.
Heimsleikarnir í CrossFit hefjast 18. september næstkomandi en fyrri hlutinn verður framkvæmdur í gegnum netið og frá heimastöðum keppenda. Fimm efstu komast síðan í lokaúrslitin sem haldin verða í Kaliforníu.
Það má finna þessu tvö stuð myndbönd hér fyrir ofan og neðan.