Fótbolti

Segja 90 prósent líkur á að Messi verði áfram hjá Barcelona

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lionel Messi er fyrirliði Barcelona og markahæsti leikmaður í sögu félagsins.
Lionel Messi er fyrirliði Barcelona og markahæsti leikmaður í sögu félagsins. getty/David Ramos

Svo virðist sem Lionel Messi gæti þurft að játa sig sigraðan í baráttunni við Barcelona. Argentínska sjónvarpsstöðin TyC Sports greinir frá því að 90 prósent líkur séu á því að Messi verði áfram hjá Barcelona.

Sem kunnugt er hefur Messi óskað eftir því að fara frá Barcelona, félaginu sem hann hefur leikið með allan sinn feril.

Faðir og umboðsmaður Messi, Jorge, fundaði með forráðamönnum Barcelona í gær þar sem forseti félagsins, Josep Bartomeu, hvatti hann til að fá son sinn til að skipta um skoðun.

Samkvæmt TyC Sports eru yfirgnæfandi líkur á að Messi verði áfram hjá Barcelona. Þetta er sami miðill og greindi fyrst frá því að hann hefði óskað eftir því að fara frá Barcelona.

Messi myndi því leika með Barcelona út næsta tímabil, eða þar til samningur hans við félagið rennur út. Hann gæti því farið frítt frá Barcelona næsta sumar.

Messi hefur ekki enn mætt á æfingar hjá Barcelona á undirbúningstímabilinu og liggur nú undir feldi og íhugar næstu skref hjá sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×