Fótbolti

Fyrirliðinn hrósaði ungu strákunum eftir landsliðsvikuna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Dagur Þorsteinsson á æfingu með íslenska landsliðinu á Laugardalsvellinum í vikunni.
Jón Dagur Þorsteinsson á æfingu með íslenska landsliðinu á Laugardalsvellinum í vikunni. Vísir/Vilhelm

Tveir ungir leikmenn íslenska landsliðsins hrifu landsliðsfyrirliðann Kára Árnason í æfingaviku landsliðsins en fram undan eru leikur við Englendinga í Þjóðadeildinni á morgun.

Jón Dagur Þorsteinsson og Andri Fannar Baldursson eru báðir í landsliðshópnum hjá Erik Hamrén að þessu sinni.

Jón Dagur Þorsteinsson er 21 árs vængmaður sem hefur spilað vel með AGF í Danmörku og skoraði meðal annars þrennu í dramatískum 4-3 sigri á dönsku meisturunum í Midtjylland í júní. Jón Dagur hefur komið við sögu áður í landsliðinu en aðeins þegar liðið hefur komið saman í janúar.

Andri Fannar Baldursson er 18 ára miðjumaður sem fékk sitt fyrsta tækifæri í Seríu A á síðasta tímabili þegar hann spilaði sjö leiki með Bologna. Eftir tímabilið fékk hann nýjan fimm ára samning. Þetta er í fyrsta sinn sem Andri Fannar er með A-landsliðinu.

„Þeir hafa stimplað sig mjög vel inn og ég er mjög hrifinn af þeim báðum,“ sagði Kári Árnason

„Jón Dagur og Andri hafa hrifið mig mikið á æfingum og þeir eru að sýna mikil gæði og samviskusemina sem þarf í þetta,“ sagði Kári.

„Framtíðin er mjög björt hjá þeim og vonandi fá þeir bara að taka þátt í næstu leikjum líka þannig að við fáum að sjá meira af þeim,“ sagði Kári Árnason.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×