Harry Bretaprins hefur endurgreitt 2,4 milljónir punda, um 440 milljónir íslenskra króna, til breska ríkisins vegna framkvæmdanna sem ráðist var í við Frogmore Cottage á síðasta ári þar sem breytingar voru gerðar innanhúss eftir höfði Harry og eiginkonu hans, Meghan Markle.
Breskir fjölmiðlar segir að hertoginn af Sussex muni halda Frogmore Cottage, sem byggt var á átjándu öld, sem híbýli fjölskyldu sinnar þegar þau dvelja í Bretlandi.
Elísabet drottning gaf á sínum tíma þeim Harry og Meghan Frogmore Cottage, sem er að finna skammt frá Windsor-kastala, vestur af London, en vitað var að ráðast þyrfti í umfangsmiklar endurbætur á húsinu til að gera það almennilega íbúðarhæft.

Harry og Meghan tilkynntu það í janúar síðastliðinn að þau myndu hætta í framlínu bresku konungsfjölskyldunnar og framvegis búa bæði í Bretlandi og Norður-Ameríku. Hjónin keyptu nýverið hús í Montecito, nærri Santa Barbara í Kaliforníu.
Þau vinna nú að því að verða fjárhagslega sjálfstæð og gátu þau endurgreitt kostnaðinn við endurbætur hússins eftir að hafa skrifað undir margmilljóna samning við Netflix um framleiðslu sjónvarpsþátta, kvikmynda og barnaþátta, en þau Harry og Meghan hafa þegar komið eigin framleiðslufyrirtæki á laggirnar.