Leikur Belgíu og Íslands gæti verið í hættu séu fleiri leikmenn belgíska landsliðsins smitaðir en belgíska knattspyrnusambandið þurfti að bregðast við fréttum gærkvöldsins.
Belgar mæta Íslendingum í Þjóðadeildinni í kvöld en í gærkvöldi kom upp smit innan leikmannahópsins hjá Belgíu sem hefur haft sínar afleiðingar.
Belgíska knattspyrnusambandið tilkynnti það á Twitter síðu sinni í dag að allir leikmenn og starfsmenn belgíska landsliðsins munu gangast undir kórónuveirupróf í dag.
UPDATE: as a result of Brandon s positive Covid-19 test, all players and staff will be retested today.
— Belgian Red Devils (@BelRedDevils) September 8, 2020
Club Brugge leikmaðurinn Brandon Mechele greindist með kórónuveiruna í gær og hefur yfirgefið belgíska hópinn. Brandon Mechele kom ekki við sögu í 2-0 sigri Belga á Dönum á laugardaginn.
Í frétt RTBF í Belgíu er haft eftir Philippe Rosier, yfirmanni heilbrigðismála hjá belgíska knattspyrnusambandinu, að leikurinn við Ísland sé ekki í hættu.
Mechele fór strax í einangrun en aðrir eig að geta tekið þátt í leiknum. Það gæti hins vegar breyst snögglega séu fleiri leikmenn eða starfsmenn smitaðir.
Fari allt á versta veg fyrir Belga þá gæti Íslandi verið dæmdur 3-0 sigur í leiknum í kvöld.
Leikurinn á að hefjast klukkan 18.45 í kvöld og hann verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Útsendingin hefst með upphitun klukkan 18.00.