Það eru nokkrar breytingar á íslenska byrjunarliðinu sem mætir Belgum í kvöld, frá því í leiknum gegn Englandi á laugardagskvöldið.
Á miðjunni fær hinn 18 ára gamli Andri Fannar Baldursson, leikmaður Bologna á Ítalíu, stórt tækifæri gegn besta landsliði heims. Þetta verður fyrsti A-landsleikur Blikans sem hefur heldur ekki spilað U21-landsleik.
Byrjunarlið Íslands
— Gummi Ben (@GummiBen) September 8, 2020
Allir komnir í gallana og upphitun hefst 18:00 á @St2Sport #BelÍsl pic.twitter.com/doSr6G5nDq
Hólmbert Aron Friðjónsson, sem kom inn á í skamma stund gegn Englandi en átti eftirminnilega innkomu, fær tækifæri í byrjunarliði Íslands í stað Jóns Daða Böðvarssonar.
Óhjákvæmilegt var fyrir Erik Hamrén að gera breytingar á milli leikja. Hannes Þór Halldórsson og Kári Árnason fóru ekki með liðinu til Belgíu og Sverrir Ingi Ingason er í leikbanni.
Ögmundur Kristinsson kemur inn í markið í stað Hannesar og í stað þeirra Kára og Sverris eru Hólmar Örn Eyjólfsson og Jón Guðni Fjóluson miðverðir. Þá kemur Ari Freyr Skúlason í stöðu vinstri bakvarðar og Arnór Sigurðsson á hægri kantinn.
Byrjunarlið Íslands (4-5-1):
Markvörður: Ögmundur Kristinsson
Varnarlínan: Hjörtur Hermannsson, Hólmar Örn Eyjólfsson, Jón Guðni Fjóluson, Ari Freyr Skúlason.
Miðjumenn: Arnór Sigurðsson, Andri Fannar Baldursson, Guðlaugur Victor Pálsson, Birkir Bjarnason, Albert Guðmundsson.
Framherjar: Hólmbert Aron Friðjónsson.