Einn einstaklingur greindist með kórónuveiruna í gær og var í sóttkví við greiningu. Þá greindist einn á landamærunum, en viðkomandi bíður mótefnamælingar.
Þetta kemur fram í nýjustu tölum á covid.is. Þar kemur einnig fram að einn er á sjúkrahúsi með Covid-19.
Alls eru staðfest smit frá upphafi faraldursins 2.162 og af þeim sem hafa greinst með Covid-19 á Íslandi eru tíu látin.
Í einangrun eru 67 manns, og fækkar um fimm síðan í gær. Þá eru 376 í sóttkví, en í gær voru 363.
Alls var tekið 461 sýni innanlands í gær og 725 á landamærunum eða í seinni landamæraskimun.