Viðskipti innlent

Ólöf endurráðin safnstjóri Listasafns Reykjavíkur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ólöf Kristín Sigurðardóttir hóf störf hjá Listasafni Reykjavíkur árið 2015.
Ólöf Kristín Sigurðardóttir hóf störf hjá Listasafni Reykjavíkur árið 2015.

Ólöf Kristín Sigurðardóttir hefur verið endurráðin til fimm ára sem forstöðumaður Listasafns Reykjavíkur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

„Undir hennar stjórn hefur tekist að styrkja hlutverk Listasafns Reykjavíkur sem öflugan og breiðan vettvang lista,“ segir Arna Schram, sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs, í rökstuðningi fyrir endurráðningu Ólafar.

Enn fremur hafi Ólöf á undanförnum árum byggt upp öflugt teymi starfsmanna og saman hafi þau óhikað farið nýjar og ótroðnar slóðir. Undir hennar stjórn hafi hvert aðsóknarmetið af öðru verið slegið og hún hafi sérstaklega lagt sig fram um að sinna nærsamfélaginu og höfða til íslenskra gesta.

Ólöf Kristín hóf störf haustið 2015 og var þá valin úr hópi níu umsækjenda. Að fimm árum loknum er sviðsstjóra menningar- og ferðamálasviðs heimilt að framlengja ráðningu safnstjóra einu sinni til næstu fimm ára að höfðu samráði við menningar-, íþrótta- og tómstundaráð. Ráðið lét bóka á fundi sínum þann 14. september sl. að það fagnaði endurráðningu Ólafar Kristínar enda hefði hún átt ákaflega farsælan feril.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×