Aðeins 0,25 prósent klínísks starfsfólks Landspítalans er með mótefni við Covid-19, samkvæmt niðurstöðum nýlegrar rannsóknar sem gerð var á starfsliði spítalans.
Þetta kemur fram í forstjórapistli Páls Matthíassonar, forstjóra Landspítalans, sem birtist á vef spítalans í dag.
Í pistlinum segir Páll að í upphafi faraldurs kórónuveirunnar hérlendis hafi það verið ein helsta áskorun spítalans hve margir starfsmenn þurftu að fara í sóttkví.
„Nú höfum við hins vegar haft grímuskyldu í starfseminni frá því í sumar og það hefur forðað mörgum frá því að þurfa að fara í sóttkví,“ ritar Páll og ítrekar tilmæli til starfsfólks um grímunotkun þegar ekki er unnt að virða fjarlægðartakmörk.
Páll segir góða vísu aldrei of oft kveðna, og vísar í því samhengi til vísu sem hann segir frá farsóttarnefnd:
„Ef þú notar grímu
og notar hana rétt
þá yrkjum við um þig rímu
og búum til um það frétt.“