Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir að vegna meiri reynslu og umfangsmikillar smitrakningar sé ekki þörf á umfangsmiklum sóttvarnaraðgerðum, enn sem komið er. Nú sé til mun meiri reynsla en þegar gripið var til harðra aðgerða í vetur.
„Við sjáum til dæmis að þessi lönd sem eru að beita þessum hörðu takmörkunum, það eru lönd sem eru ekki rakningu eins og við erum með. Þau eru ekki með þessa hörðu rakningu og við teljum að með þessari góðu rakningu sem við erum með, getum við einangrað og séð betur hvar vandamálin eru,“ sagði Þórólfur á upplýsingafundi í dag.
Þannig sé hægt að beita markvissari aðgerðum á þá staði og þau tilfelli. Frekar en að beita takmörkunum á allt landið eða stórt landsvæðið.
„Að mínu mati er skynsamlegra að byrja á þeirri ráðstöfun. Sjá hverju það skilar og fylgjast með þróuninni í faraldsfræðinni og vera tilbúin til að grípa til harðari aðgerða ef á þarf að halda.“
Þetta sagðist Þórólfur telja miklu skynsamlegra, því afleiðingar af hörðum aðgerðum séu meiri en markvissari aðgerðum.