Ríkistjórnin kynnir stuðningsaðgerðir fyrir menningu og listir á landinu á allra næstu dögum. Samstarf hefur verið við forsvarsfólk úr geiranum um aðgerðirnar. Samtök iðnaðarins og ferðaþjónustunnar kalla einnig eftir aðgerðum af hálfu stjórnvalda.
Tónlistarfólk og samtök þeirra kölluðu eftir ríkisstuðningi fyrir geirann í byrjun september. Menntamálaráðherra sagði í síðustu viku að verið væri að vinna að stuðningsaðgerðum fyrir listir og menningu í landinu. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu verða þær kynntar á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar á morgun eða miðvikudag.
Samtök ferðaþjónustunnar hafa einnig kallað eftir frekari aðgerðum frá stjórnvöldum. Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri SAF segir að nú sé horft til rekstrarstyrkja svo ferðaþjónustufyrirtæki missi ekki lykilstarfsfólk á atvinnuleysisbætur.

„Þarna er um að ræða fólk sem myndi að öðrum kosti enda á atvinnuleysisbótum þannig að kostnaðurinn endar hvort sem er hjá ríkinu að stórum hluta. Þannig að þarf ekki að bæta miklum fjármunum við til þess að tryggja þessi störf. Ef þetta verður gert verður ferðaþjónustan mun fljótari að ná sér en ef allir fara á atvinnuleysisbætur og einhver hluti í önnur störf,“ segir Jóhannes.
Í dag rennur út frestur hjá fyrirtækjum sem ætla að sækja um ríkisstuðning vegna hluta launa á uppsagnafresti í ágúst. Jóhannes segir að búist sé við að um 3000 manns fari á atvinnuleysisbætur næstu mánaðarmót og stór hluti þeirra úr ferðaþjónustu og því þurfi að vinna hratt næstu daga og vikur.
Samtök iðnaðarins hafa einnig kallað eftir aðgerðum af hálfu stjórnvalda vegna áhrifa af faraldrinum. Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri samtakanna segir gríðarlega mikilvægt að almenn skilyrði rekstrar verði bætt.

Í því skyni þá höfum við lagt áherslu á að stjórnvöld móti atvinnustefnu sem miði að aukinni samkeppnishæfni landsins,“ segir Sigurður.
Hann segir mikilvægt að leggja áherslu á iðn-og tækninám, byggja upp innviði, bæta umhverfi nýsköpunar, einfalda regluverk og gera umbætur á byggingamarkaði. Það þarf að gera breytingar á mannvirkjalögum.
Það hefur verið fjárfest of lítil fjárfesting í innviðum á síðustu 10 árum þó það hafi batnað aðeins síðustu ár.
„Við höfum líka lagt áherslu á eftirspurnarhvetjandi átak eins og „Allir vinna“ þar sem er 100% endurgreiðsla á virðisaukaskatti verði framlengt að minnsta kosti út næsta ár en að óbreyttu rennur það út næstu áramót“, segir Sigurður.