Viðskipti innlent

Stöð 2 og Luxor í samstarf

Tinni Sveinsson skrifar
Vignir Örn, verkefnastjóri Luxor, Eva Georgs, Ásudóttir frameiðslustjóri Stöðvar 2, Karl Sigurðsson, framkvæmdastjóri Luxor og Þórhallur Gunnarsson, framkvæmdastjóri miðla hjá Sýn.
Vignir Örn, verkefnastjóri Luxor, Eva Georgs, Ásudóttir frameiðslustjóri Stöðvar 2, Karl Sigurðsson, framkvæmdastjóri Luxor og Þórhallur Gunnarsson, framkvæmdastjóri miðla hjá Sýn.

Stöð 2 og Luxor tækjaleiga ehf. hafa undirritað samstarfssamning um framleiðslu á íslensku sjónvarpsefni næstu árin. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Luxor.

Luxor útvegar ljósa-, hljóð- og sviðsbúnað í framleiðsluverkefni Stöðvar 2 ásamt því að tæknimenn frá Luxor vinna að upptökum og útsendingum stöðvarinnar. Þar að auki hanna starfsmenn Luxor leikmyndir og lýsingu fyrir Stöð 2.

„Samstarfið við Luxor hefur verið virkilega ánægjulegt og þetta samkomulag mun efla innlenda framleiðslu í myndverunum sem við höfum byggt upp í höfuðstöðvum Stöðvar 2 á Suðurlandsbraut enn frekar,“ segir Eva Georgs. Ásudóttir, framleiðslustjóri Stöðvar 2.

„Við höfum sinnt þessari þjónustu undanfarna mánuði fyrir Stöð 2,“ segir Karl Sigurðsson framkvæmdastjóri Luxor. 

„Eftir að Covid skall á hefur stóraukist framleiðsla á íslensku efni, sem tekið er upp í myndveri Stöðvarinnar. Á tímabili framleiddum við saman nýtt verkefni í hverri viku. Samningurinn tekur að miklu leyti utan um þessa þjónustu.”

„Við sérhæfum okkur meðal annars í þjónustu við sjónvarpsframleiðslu, auk þess að vinna að lifandi viðburðum, tónleikum og fleiru. Sá iðnaður hefur að mestu legið niðri síðan í byrjun mars. Það er því engum blöðum um það að fletta að þessi samningur er þýðingarmikill fyrir okkur á þessum tímapunkti og við erum þakklát fyrir það traust sem okkur er sýnt.”

Stöð 2 og Vísir eru bæði hluti af Sýn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×