Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hyggst funda með aðilum vinnumarkaðarins til þess að fara yfir stöðuna. Þetta staðfestir hún í samtali við Vísi en segir ekki liggja fyrir hvenær fundurinn fer fram.
Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands greinir á um hvort að forsendur lífskjarasamninganna séu brostnar eða ekki.
SA líta svo á að forsendurnar hafi ekki haldið í ljósi þeirrar kreppu sem kórónuveirufaraldurinn hefur valdið. Því þurfi samningsaðilar að bregðast við. ASÍ telur aftur á móti að forsendurnar hafi haldið.
SA mun því boða til allsherjaratkvæðagreiðslu á meðal aðildarfyrirtækja sinna um afstöðu þeirra til uppsagnar kjarasamninganna, sem taki þá gildi þann 1. október.
Forsætisráðherra segir í viðtali við Morgunblaðið í dag að það sé ljóst að ef það stefni í átök á vinnumarkaði þá sé það mikið áhyggjuefni í þeirri stöðu sem blasir við í samfélaginu vegna faraldursins og afleiðinga hans.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagði í fréttum Stöðvar 2 í vikunni að efnahagslegar forsendur fyrir kjarabata launþega væru foknar út í veður og vind. Kanna þyrfti hvort nauðsynlegt væri að fresta launahækkunum.
Aðspurð hvort það sé ekki afstaða stjórnvalda að forsendur kjarasamninga séu brostnar segir Katrín við Morgunblaðið að sé aðilanna sjálfra að meta forsendurnar sín á milli:
„Það liggur algjörlega fyrir að hvað stjórnvöld varðar þá teljum við okkur hafa staðið við allar þær yfirlýsingar sem við gáfum í tengslum við kjarasamninga. Við höfum lagt áherslu á það, að allt það sem við gáfum yfirlýsingu um hefur annaðhvort gengið eftir á samningstímanum eða er í vinnslu. En síðan er það auðvitað aðilanna sjálfra að meta forsendurnar sín á milli.“