Fylkir vann langþráðan sigur á Íslandsmeisturum KR í Frostaskjóli í Pepsi Max deild karla í knattspyrnu í gær. Lokatölur leiksins 2-1 þar sem sigurmarkið kom úr vítaspyrnu undir blálokin. Aðdragandi hennar var langur en Beitir Ólafsson – markvörður KR – fékk dæmda á sig vítaspyrnu ásamt því að fá rautt spjald að launum fyrir að slæma hendi í andlit Ólafs Inga Skúlasonar, leikmanns Fylkis.
Ólafur Ingi féll til jarðar og þó svo að KR væri komið í sókn á hinum enda vallarins ákvað Ívar Orri Kristjánsson – dómari leiksins – á endanum að dæma vítaspyrnu og reka Beiti út af.
Ólafur Ingi mætti í viðtal eftir leik þar sem hann sagði að Beitir hefði sett olnbogann í andlit sitt og að vítaspyrna hafi verið réttur dómur. Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, sagði við Vísi eftir leik að Ólafur Ingi hefði sett upp leikrit og ekki í fyrsta skiptið.
„Hann hefur gert þetta oft áður og hann er að reyna eyðileggja leikinn á þennan hátt … þegar lið vinna á þennan hátt þá er þetta bara svindl og svínarí,“ sagði Rúnar að leik loknum.
Knattspyrnudeild Fylkis íhugar nú að kæra KR til KSÍ vegna ummæla Rúnars eftir leik. Kjartan Daníelsson, formaður knattspyrnudeildar Fylkis, staðfesti þetta í samtali við Vísi nú rétt í þessu. Ólafur Ingi Skúlason, sagði í viðtali við Rikka G fyrr í dag, að Fylkir væri búið að leggja fram kæru á hendur KR en það virðist ekki alveg rétt.
„Ég get staðfest að við erum að skoða hvaða leiðir við ætlum að fara í þessu máli. Við erum að skoða þetta innan félagsins vegna þess hve alvarleg ummæli er um að ræða,“ sagði Kjartan.
Fylkir hefur fimm daga til að taka ákvörðun í málinu en þá rennur kærufrestur Knattspyrnusambandsins út.
Páll Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar KR, sagðist ekkert hafa heyrt um málið en það væri ljóst að KR-ingar myndu svara fyrir það ef málið myndi rata inn á borð til þeirra.